Fréttablaðið birtir í dag aðsenda grein eftir lækna, stjórnendur og prófessora við læknadeild HÍ.


Greinin ber yfirskriftina „Framtíðin bíður ekki“ og fjallar m.a. um þau rök sem búa að baki þeirri ákvörðun að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut.


Þar segir meðal annars:


„Staðsetningin við Hringbraut hefur verið skoðuð af fjölda sérfræðinga og nefndir sem hafa lagst yfir málið hafa í öllum tilvikum komist að sömu niðurstöðu; að Hringbraut sé besti valkosturinn. Í flókinni ákvörðun er hin fullkomna lausn ekki til. Staðsetning við Hringbraut er hins vegar mjög góður kostur og mun betri og ódýrari en aðrir kostir sem hafa verið rækilega athugaðir“.


„Helstu rökin fyrir staðsetningu við Hringbraut eru eftirfarandi: Uppbygging á öðrum stað tefur uppbyggingu Landspítala. Áætlað er að nýtt staðarval, skipulagsferli, hönnun og útboðsferli seinki uppbyggingu að lágmarki um 5-10 ár. Til þess höfum við ekki tíma því núverandi húsnæði er þegar úr sér gengið og er of lítið. Starfsemin er rekin í 100 húsum á 17 stöðum. Enn eru við lýði fjögurra manna stofur og aðeins 7% herbergja hafa einkasalerni. Deildir eru yfirfullar og sjúklingum er fundinn staður á göngum. Á sama tíma fjölgar þjóðinni hratt og hlutfall eldri borgara eykst. Lélegur aðbúnaður er óásættanlegur fyrir sjúklinga, skerðir gæði þjónustunnar og ógnar öryggi. Þetta er ólíðandi staða sem bregðast verður við strax“, segir í greininni.


Höfundar greinarinnar eru:
Tómas Guðbjartsson, Magnús Karl Magnússon, Engilbert Sigurðsson, Alma D. Möller, Unnur A. Valdimarsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson prófessorar við læknadeild HÍ og/ eða yfirlæknar/stjórnendur við Landspítala.

Greinin birtist einnig á visi.is hér

 

 

Í Fréttablaðinu 4.9 birtist grein eftir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Pál Matthíasson forstjóra Landspítala um málefni nýs Landspítala. Þar kemur fram að víðtæk samstaða sé um nauðsyn þess að endurnýja húsnæði Landspítala og að tími uppbyggingar sé runninn upp. Farið er ítarlega yfir þau rök sem liggja að baki staðarvals á Hringbraut. Fram kemur að við staðarvalið hafi verið horft til þriggja þátta, góðs aðgengis, hagkvæmni í uppbyggingu og samstarfs við stofnanir. Niðurstaðan sé ávallt sú sama að Hringbrautin hafi þá kosti sem vega þyngst hvort sem horft er til faglegra eða fjárhagslegra þátta.

 

 

Grein í heild sinni má sjá á visir.is 

 

 

Handritsútgáfa grein:

 

Landspítali við Hringbraut

 

Víðtæk samstaða er um nauðsyn þess að endurnýja húsakost Landspítalans. Spítalinn nýtur trausts og velvildar landsmanna sem vilja hlúa að að starfsemi hans. Vilji Alþingis er skýr og hefur verið staðfestur með lögum. Stefna borgarstjórnar liggur fyrir í samþykktu skipulagi. Kyrrstaðan hefur verið rofin, tími uppbyggingar er runninn upp.

Uppbygging Landspítalans verður við Hringbraut. Mikil vinna var lögð í að finna þann stað sem best hentaði uppbyggingu og rekstri til framtíðar og fékkst niðurstaðan eftir yfirlegu og ítarlega skoðun fagfólks með breiða þekkingu á skipulagsmálum og spítalarekstri. Ólíkir hópar hafa endurmetið forsendur og skoðað staðarvalið frá ýmsum hliðum. Einkum þrír þættir hafa verið hafðir að leiðarljósi; gott aðgengi, hagkvæmni í uppbyggingu og samstarf við aðrar mikilvægar stofnanir í nágrenninu. Niðurstaðan er alltaf sú sama – staðsetning við Hringbraut hefur þá kosti sem vega þyngst, hvort sem horft er til faglegra eða fjárhagslegra þátta. Niðurstöður í nýrri skýrslu KPMG þar sem rýnt var í gögn um kostnað og hagkvæmni þess að byggja við nýjar sjúkrahúsbyggingar við Hringbraut eru enn ein staðfestingin á þessu.

Kostir uppbyggingar við Hringbraut

Aðgengi: Aðkomuleiðir að Hringbrautarlóðinni hafa reynst bestar  af þeim kostum sem skoðaðir hafa verið. Aðgengi sjúklinga er gott og verður enn betra með uppbyggingu samgöngumiðstöðvar í túnfæti spítalans, líkt og skipulag gerir ráð fyrir. Um helmingur starfsfólks spítalans getur gengið eða hjólað til vinnu við Hringbraut á innan við 14 mínútum sem felur í sér mikið hagræði fyrir fólkið, spítalann og umhverfið.  Meirihluti starfsmanna kemur til vinnu á undan aðaltoppi morgunumferðar. Landspítalinn vinnur að því að auka hlutfall starfsmanna sem nýta vistvænan ferðamáta, þ.e. koma í strætó, gangandi eða hjólandi. Hlutfallið er nú um fjórðungur og fer hækkandi. Þessi jákvæða þróun  mun skipta miklu máli og auðvelda umferð við og í nágrenni spítalans.

Hagkvæmni: Mikil hagkvæmni felst í uppbyggingu við Hringbraut í ljósi þeirrar staðreyndar að stærstur hluti húsakostsins sem þar er fyrir nýtist áfram, alls um 56.000 fermetrar. Þar vegur þungt nýlegt og vel búið húsnæði barnaspítalans sem kennt er við Hringinn. Annað staðarval krefst miklu fleiri nýbygginga með tilheyrandi kostnaðarauka. Ljúka þyrfti öllum byggingum áður en nýr spítali á nýjum stað gæti tekið til starfa. Slíkar aðstæður skapa þrýsting sem leiðir til enn frekari kostnaðarauka. Bið eftir bættum húsakosti Landspítala -  sem þegar er orðin allt of löng – yrði miklu lengri ef leita þyrfti að nýrri lóð og vinna tilheyrandi skipulag, hanna nýjar byggingar og ný samgöngumannvirki og skipuleggja aðkomu á nýjum stað. Ljóst er að nýr spítali tæki ekki til starfa fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2030 ef hefja þyrfti undirbúningsferlið að nýju. Slíkt er ekki boðlegt, hvorki sjúklingum né starfsfólki.

Nágrenni: Landspítali á í nánu samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og líftæknifyrirtæki sem nú eru að byggjast upp í nágrenni hans. Í því felast mikil tækifæri fyrir uppbyggingu Landspítala sem háskólasjúkrahúss landsins og nálægðin við þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir verulegu máli.

 

Hefjumst handa

Stórar ákvarðanir sem varða ríka hagsmuni margra eru oft umdeildar. Ákvörðun um framtíðaruppbyggingu sjúkrahúss allra landsmanna er svo sannarlega stór og mikilvæg og því var viðbúið að skoðanir yrðu skiptar. Rík áhersla hefur verið lögð á það í ákvarðanaferlinu að vanda til verka og að eiga svör við allri málefnalegri gagnrýni. Niðurstaðan sem liggur fyrir er skýr og afdráttarlaus. Uppbygging við Hringbraut er skynsamleg og rétt niðurstaða. Þess vegna er mikilvægt að hefjast handa svo ljúka megi verkinu og endurbyggja þjóðarsjúkrahús Íslendinga sem fyrst.

Í Morgunblaðinu 28.8 skrifar Reynir Arngrímsson formaður Læknaráðs Landspítalans um mikilvægi þess að hefja hið fyrsta byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut.

„Ljóst er að staðan á Landspítala eftir langvinnt fjársvelti er algjörlega óásættanleg fyrir allan almenning sem og sjúklinga og starfsmenn spítalans. Fagfélög og stéttarfélög lækna og annarra heilbrigðisstétta hafa endurtekið bent á þær hættur sem slíkur langvinnur niðurskurður á rekstrarfé til spítalans hefur í för með sér“, segir Reynir

Brot úr grein má sjá hér:

Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur, haldinn í Kópavogi þriðjudaginn 27. maí 2014, hvetur heilbrigðisyfirvöld til að beita sér af fullu afli fyrir nauðsynlegri endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans. Tafarlaus bygging sameiginlegs meðferðarkjarna með bráðamóttöku, legudeildum, skurðstofum og rannsóknadeildum á einum og sama stað er nauðsynleg til að viðhalda Landspítalanum sem þjóðarsjúkrahúsi, tryggja nútíma læknisþjónustu sem stenst alþjóðlegan samanburð og til að ná fram æskilegri hagkvæmni í rekstri. “ Í yfirlýsingu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra og Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélagsins frá 8. janúar 2015 er kveðið skýrt á um að starfsaðstaða verði bætt með byggingu nýs Landspítala, endurnýjun tækja, samtengingu rafrænnar sjúkraskrár, eflingu heimilislækninga og svigrúmi til fyrsta flokks læknismeðferðar. Um þetta ríkir almenn sátt. Nú er komið að Alþingi, sem ekki má láta sitt eftir liggja að tryggja fjármögnun til endurnýjunar húsakosts Landspítalans.