Morgunblaðið birtir í dag fréttaskýringu um stöðu Hringbrautarverkefnisins þar sem rætt er við Gunnar Svavarsson stjórnarformann nýs Landspítala.


Þar kemur fram að samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun ríkisins sé gert ráð fyrir milljarða framlagi ríkisins vegna byggingar meðferðarkjarna sem er stærsta framkvæmd við heildar uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.


„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og í anda þess sem Hringbrautarverkefnið hefur stefnt að, varðandi tíma og kostnaðaráætlanir, sem við höfum unnið eftir“, segir Gunnar.


Fram kemur að öll verk séu á áætlun, nýtt sjúkrahótel verði afhent fullbúið á vormánuðum 2017 og að nýr meðferðarkjarni verði tilbúinn 2023.


Meðferðarkjarninn er stærsta framkvæmdin í heildaruppbyggingunni og þar verður mikilvægasta starfsemi spítalans svo sem skurðstofur, þræðingar, gjörgæsla, myndgreining, smitsjúkdómadeild og ýmsar klíniskar stoðdeildir.

Einnig verða allar bráðamóttökur að mestu sameinaðar í eina í nýjum meðferðarkjarna ásamt annarri starfsemi.

Frétt mbl.is um málið má nálgast hér

Í föstudagsblaði Morgunblaðsins 18.mars er rætt við Gunnar Svavarsson, stjórnarformann nýs Landspítala.


Í máli hans kemur fram að allar framkvæmdir vegna byggingar nýs gangi samkvæmt tímaáætlun.


Allt skipulag liggur fyrir og fjórðungur hönnunar. Nú er unnið við byggingu sjúkrahótels og það verður tekið í notkun 2017.


Einnig kemur fram út af umræðu um ónæði af framkvæmdum að ónæði vegna jarðvegsvinnu lýkur í apríl. Gunnar sagði ennfremur að um leið og meginframkvæmdirnar hæfust sunnan við núverandi Landspítalans yrðu sjúklingar og starfsfólk spítalans minna vör við þær.


Gunnar segir að uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut gangi mjög vel.

Elín Hirst, alþingismaður, skrifar grein í Fréttablaðið í dag um málefni Landspítala.


Greinarhöfundur bendir á að engan tíma megi missa og gefa þurfi í við framkvæmdir vegna nýs Landspítala við Hringbraut.


„Mál númer eitt,tvö og þrjú er að koma allri þjónustu við bráðveika og bráðarannsóknarþjónustu undir eitt þak, og bæta bráðavanda LSH við Hringbraut á sem fæstum árum“, segir Elín.


Elín minnir á ábyrgð stjórnmálamanna og ítrekar mikilvægi þess að klárað verði að byggja við Hringbrautina á sem skemmstum tíma.


„Þetta er algerlega tímabært og ekkert nema skynsemi fólgin í þvi að byggja duglega undir helstu velferðarstoð þessa þjóðfélags. Snúa af brautinni þar sem við erum annars flokks og koma okkur aftur í fremstu röð“, segir Elín.


Grein Elínar má sjá hér

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skrifaði í dag undir samning við byggingarfyrirtækið LNS Saga ehf. um byggingu sjúkrahótels. Samningurinn er milli Nýs Landspítala ohf. og LNS Saga ehf.


Meðal fjölmargra viðstaddra voru meðal annars nemendur frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands sem vottuðu samninginn.


Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala við Hringbraut. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mikið til batnaðar.


Heilbrigðisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að sjúkrahótelinu. Með honum voru m.a. fyrrverandi heilbrigðisráðherrar auk starfsmanna Landspítala, annarra velunnara hans og áhugafólks um uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut.


Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: "Þetta er ánægjulegur dagur sem markar ákveðin tímamót. Nýtt sjúkrahótel mun bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra strax og það er risið. Mestu skiptir þó sú staðreynd að með þessum fyrsta áfanga eru verklegar framkvæmdir við uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss hafnar."


Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala sagði að dagurinn í dag markaði upphaf uppbyggingar nýs Landspítala.


Samninginn undirrituðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Ásgeir Loftsson frá LNS Saga.


Ásgeir Loftsson framkvæmdastjóri sagði að þetta sé spennandi verkefni og að fyrirtækið sé vel í stakk búið að takast á við þetta verkefni.


Framkvæmdir munu hefjast fljótlega á lóð Landspítala. Í fyrstu er um að ræða gerð bráðabirgðabílastæða á svæðinu sunnan við aðalbyggingu Landspítala sem koma í stað annarra stæða sem verður lokað tímabundið þegar framkvæmdir hefjast við byggingu sjúkrahótelsins. Þessari framkvæmd verður lokið um miðjan desember.

Frétt á ruv.is


Nánari upplýsingar.


Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spitalhópnum. Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni.
Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang. Samningsfjárhæð er samkvæmt tilboði verktaka og samkvæmt ákvæðum útboðsgagna, kr. 1.833.863.753,- með vsk.

Sjónvarpsstöðin Hringbraut er með á dagskrá þátt sem ber heitir „úr atvinnulífinu“.

Þáttur kvöldsins er helgaður félagasamtökunum „Spítalinn okkar“ sem eru landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala og voru stofnuð í apríl árið 2014. Rætt er við forsvarsmenn samtakanna um málefni nýs Landspítala. Mörg fróðleg viðtöl og teikningar af nýjum Landspítala við Hringbraut koma fram í þættinum sem er í umsjón Sigurðar Kolbeinssonar.

Hægt er að horfa á þættina í heild sinni á vefsvæði sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar hér.

Fréttablaðið birtir í dag aðsenda grein eftir lækna, stjórnendur og prófessora við læknadeild HÍ.


Greinin ber yfirskriftina „Framtíðin bíður ekki“ og fjallar m.a. um þau rök sem búa að baki þeirri ákvörðun að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut.


Þar segir meðal annars:


„Staðsetningin við Hringbraut hefur verið skoðuð af fjölda sérfræðinga og nefndir sem hafa lagst yfir málið hafa í öllum tilvikum komist að sömu niðurstöðu; að Hringbraut sé besti valkosturinn. Í flókinni ákvörðun er hin fullkomna lausn ekki til. Staðsetning við Hringbraut er hins vegar mjög góður kostur og mun betri og ódýrari en aðrir kostir sem hafa verið rækilega athugaðir“.


„Helstu rökin fyrir staðsetningu við Hringbraut eru eftirfarandi: Uppbygging á öðrum stað tefur uppbyggingu Landspítala. Áætlað er að nýtt staðarval, skipulagsferli, hönnun og útboðsferli seinki uppbyggingu að lágmarki um 5-10 ár. Til þess höfum við ekki tíma því núverandi húsnæði er þegar úr sér gengið og er of lítið. Starfsemin er rekin í 100 húsum á 17 stöðum. Enn eru við lýði fjögurra manna stofur og aðeins 7% herbergja hafa einkasalerni. Deildir eru yfirfullar og sjúklingum er fundinn staður á göngum. Á sama tíma fjölgar þjóðinni hratt og hlutfall eldri borgara eykst. Lélegur aðbúnaður er óásættanlegur fyrir sjúklinga, skerðir gæði þjónustunnar og ógnar öryggi. Þetta er ólíðandi staða sem bregðast verður við strax“, segir í greininni.


Höfundar greinarinnar eru:
Tómas Guðbjartsson, Magnús Karl Magnússon, Engilbert Sigurðsson, Alma D. Möller, Unnur A. Valdimarsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson prófessorar við læknadeild HÍ og/ eða yfirlæknar/stjórnendur við Landspítala.

Greinin birtist einnig á visi.is hér

 

 

Tómas Guðbjartsson, læknir á Landspítala, segir í nýlegu viðtali við Stöð 2 að hvetji yfirvöld til að hvika hvergi við fyrri áform sín um að reisa nýjan Landspítala við Hringbraut.


„það er sambærilegt því að snúa við í miðri á ef finna á nýja staðsetningu fyrir spítalann“, segir Tómas. Hann segir ennfremur:
„Ef þú ætlar að byggja upp sjúkrahús sem er af hæstu gæðum, þá verðurðu að hafa svona þekkingarklasa. Ef að við ætlum að svona að bera okkur saman við það besta, þá verðum við auðvitað að gera það eins þannig að það er ekki hægt að hafa lækna á hjúkrunardeild hér og heilbrigðisverkfræði og hafa svo spítala á Vífilsstöðum og það er annað sem gleymist í þessari umræðu líka, hvað eigum við að gera við þetta vel heppnaða barnasjúkrahús sem við erum með hér? Eigum við að leggja það niður og byggja annars staðar? Það eru svona hlutir sem að hafa gleymst í umræðunni“, segir Tómas.


Einnig kemur fram í viðtalinu við Tómas að hann er ekki viss um að m.a. forsætisráðherra og margir af hans kollegum hafi fengið réttar upplýsingar um málið.


Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um málið

Undirskriftarlistar hóps fólks eru birtir á síðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag.

Stór hópur um 400 manns lýsa þar stuðningi sínum við því að uppbygging nýs Landspítala verði við Hringbraut.

Meðal þeirra sem rita undir stuðningsyfirlýsinguna eru fjölmargir starfsmenn Landspítala, aðilar úr háskóla – og fræðasamfélaginu.

Meðal þeirra sem skrifa undir áskorunina eru um 360 læknar, hjúkrunarfræðingar, prófessorar, sjúkraþjálfarar, ljósmæður, geislafræðingar, móttökuritarar, stjórnmálamenn, verkfræðingar og forstöðumenn ríkisstofnana. Á listanum má nefna Birgi Jakobsson landlækni, Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara, Dag B. Eggertsson borgarstjóra, Geir H. Haarde sendiherra og fyrrum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóra, Páll Matthíasson forstjóra Landspítala og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands auk níu fyrrverandi heilbrigðisráðherra úr fjórum stjórnmálaflokkum.

 

Frétt mbl.is um yfirlýsinguna má finna hér og frétt ruv.is hér

Morgunblaðið birtir í dag aðsenda grein eftir Þorkel Sigurlaugsson, stjórnarmann í félagasamtökunum Spítalinn okkar. Þorkell fer yfir þá umræðu sem verið hefur síðustu vikur um staðsetningu nýs Landspítala og segir meðal annars um staðsetninguna:

„Sem stjórnarmaður í áhugamannasamtökum um uppbyggingu nýs landspítala, „Spítalinn okkar“ ,hef ég kynnst því vel hvað búið er að vinna mikið og gott undirbúningsstarf á undanförnum árum þótt vissulega sé mikið undirbúningsstarf eftir. Samtökin líta ekki á það sem sitt hlutverk að berjast fyrir ákveðnum stað, en þegar lífið liggur við, þá verður ekki orða bundist. Að hvetja til hiks og umbyltingar á þessu verkefni getur haft afdrifaríkar afleiðingar.


Hér má sjá styttri útgáfu af greininni:


Öll rök eru fyrir staðsetningu við Hringbraut


Rökin fyrir uppbyggingu við Hringbraut eru mjög afgerandi hvernig sem á málið er litið og eru hér nefnd nokkur dæmi.


• Við Hringbraut á svokölluðum BSÍ-reit við „bæjardyr“ Landspítala mun rísa samgöngumiðstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið.


• Í nágrenninu eru tveir öflugir háskólar, Íslensk erfðagreining, lyfjafyrirtæki og margvísleg önnur vísindastarfsemi. Háskóli Íslands er rannsókna- og kennsluháskóli á sviði læknisfræði, hjúkrunarfræði, lyfjafræði, verkfræði og fjölmargra annarra háskólagreina.


• Sífellt fleiri nemendur búa á stúdentagörðum í nágrenninu sem dregur úr umferð. Háskólaspítali er eins og nafnið gefur til kynna jafnframt kennslu- og rannsóknaspítali.


• Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Skipulagsstofnun ríkisins hefur samþykkt þetta staðarval.


• Landlæknir, forstjóri Landspítala og mikill fjöldi heilbrigðisstarfsmanna við Landspítala og víðar hafa bent á mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdir við nýjan Landspítala sem fyrst.


• Ef byggður verður nýr Landspítali á nýjum stað mun þjóðin þurfa að reka þrjá spítalaklasa til næstu áratuga. Einn bætist við á nýjum stað ef hann klárast þá einhvern tíma og áfram verða hinir tveir spítalarnir við Hringbraut og í Fossvogi um ófyrirsjáanlega framtíð. Af fenginni reynslu af stórum framkvæmdum mun eitt stykki nýr spítali aldrei klárast að fullu sbr. K bygging Landspítala og Læknagarð sem eru lítil verkefni en hafa aldrei klárast.


• Ekkert liggur fyrir um það hvar betri spítali á betri stað ætti að vera og nýtt skipulags- og undirbúningsferli mundi taka fjölda ára.
Ákvörðun hefur verið tekin á öllum stjórnsýslustigum um uppbyggingu við Hringbraut.


Í svona mikilvægu og flóknu máli er mikill ábyrgðarhluti að reyna að setja verkefnið í uppnám með einhverjum pólitískum áskorunum og yfirlýsingum um miklu betri lausn. Talað er um að hægt sé að græða svo mikið á að selja núverandi landsvæði og byggingar Landspítala við Hringbraut. Og hverjum á að selja og hvenær? Við eigum ekki að byggja nýjan spítala með væntingar um að græða megi svo mikið af núverandi landsvæði og byggingum.


Það mun auðvitað ekki takast að brjóta niður þá samstöðu sem er og hefur verið um þetta verkefni. Það er aftur á móti mikilvægt að starfsfólk spítalans, unga fólkið, sem er að mennta sig á þessu sviði, og sjúklingar framtíðarinnar missi ekki trúna á því að verkefnið sé að fara loksins í gang. Við viljum ekki einhvern annan spítala á einhverjum öðrum stað. Þannig væri verið að gera tilraun til að ýta verkefninu yfir á nýtt Alþingi og næstu ríkisstjórn. Þegar ákvarðanir eins og þessar hafa verið teknar þá á öll þjóðin að standa á bak við hana og styðja með ráð og dáð. Það er full þörf á því.

Í fréttum RÚV sjónvarps 14.október var rætt við Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar, um hvernig nýr Landspítali við Hringbraut falli að skipulagi borgarinnar.Hún segir að staðsetningin falli best að aðalskipulagi Reykjavíkur og markmiðum þess um þéttingu byggðar og aukna samkeppnishæfni Reykjavíkur á alþjóðavísu.

„Það er stórt byggingarland hérna, það er nálægð við spítalann. Það er nálægt við stórar stofnbrautir. Það eru í nálægð við fyrirhugaða samgöngumiðstöð höfuðborgarsvæðisins og þá borgarlínu almennra samgangna sem þangað gengur og það er nálægðin ekki síst við háskólana tvo og þau svæði sem að eru byrjuð að byggjast upp í kringum þá að vísinda- og þekkingarstarfsemi“, segir Ásdís.


Varðandi það hvort aðrir staðir henti betur undir spítala segir Ásdís að það sé búið að greina þetta til margra ára og að það liggur fyrir að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi henti best og því sé þetta besti kosturinn.


Frétt RÚV má sjá hér