Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, opnaði í dag nýja götu sem er fyrsti áfangi í uppbyggingu í Hringbrautarverkefninu við Landspítala Hringbraut.

Fulltrúar frá sjúklingasamtökum tóku þátt í athöfninni með þvi að opna götuna formlega með ráðherra. Að því loknu gengu fulltrúar sjúklingasamtaka með ráðherra eftir nýju götunni sem liggur frá Barónsstíg að K-byggingu Landspítala samhliða nýju sjúkrahóteli sem tekið verður í notkun 2017.

Bygging sjúkrahótelsins gengur vel og er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mikið til batnaðar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: "Það var ánægjulegt að taka þátt í þessum áfanga uppbyggingar í Hringbrautarverkefninu. Verklegar framkvæmdir við sjúkrahótelið ganga vel og opnun nýju götunnar er mikilvægur áfangi í heildaruppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss."

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH: " Í dag er ástæða til að gleðjast. Það var ánægjulegt að fá fulltrúa frá sjúklingasamtökunum til liðs við okkur í dag við opnun götunnar. Uppbygging Hringbrautarverkefnisins gengur vel, nýtt sjúkrahótel rís senn sem mun gerbreyta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda þeirra. Við horfum björtum augum á framtíðina og á þá uppbyggingu sem hér á stað. Að þessu verki koma fjölmargir aðilar og verkefnið gengur vel“.


Nöfn fulltrúa frá sjúklingasamtökum sem tóku þátt í athöfninni:

Ólína Ólafsdóttir MS félagið, Emil Thoroddsen Gigtarfélag Íslands , Guðjón Sigurðsson MND félagið, Sveinn Guðmundsson Hjartaheill , Bergþór Böðvarsson Geðhjálp, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir Öryrkjabandalag Íslands, Bryndís Snæbjörnsdóttir Landssamtökin Þroskahjálp, Sigrún Gunnarsdóttir Krabbameinsfélag Íslands.

Nánari upplýsingar um sjúkrahótelið en það verður tekið í notkun 2017.

Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spitalhópnum. Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni. Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang.

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um rekstur og þjónustu nýs sjúkrahótels ,sem verið er að byggja við Landspítala Hringbraut, hefur skilað skýrslu til ráðherra.

„Nýja Sjúkrahótelið verður mjög mikilvægt öllum landsmönnum og mun auka gæði á þjónustu til sjúklinga og aðstandenda þegar það verður tekið í notkun vorið 2017, segir Þorkell Sigurlaugsson sem var formaður nefndar heilbrigðisráðherra um rekstur nýs Sjúkrahótels“.

Sjúkrahótelið verður tekið í notkun næsta sumar og leysir brýna þörf sjúklinga fyrir gistiaðstöðu og mun styðja mjög við starfsemi Landspítala.

Nánar um Sjúkrahótelið:

Þar verða 75 herbergi en til samanburðar voru 25 herbergi í notkun á hótelinu við Ármúla.
Með rekstri hótelsins má ná fram verulegri hagræðingu innan Landspítala og heilbrigðiskerfisins almennt. Stórbætt þjónustu verður við sjúklinga sem áður var eingöngu hægt að sinna að hluta.
Náin tengsl við kvennadeild Landspítala, Barnaspítala og fjölmargar aðrar deildir spítalans eykur notagildi hótelsins. Þar verður lögð áhersla á heimilislegt umhverfi og gæði í veitingaþjónustu, heilbrigðistengdri þjónustu og að veita félagslega ráðgjöf, endurhæfingu og aðra stoðþjónustu. Aðstaða verður einnig fyrir aðstandendur sjúklinga en það getur verið mikilvægur þáttur í bataferli sjúklinga.

Tillögur starfshópsins um starfsemi hótelsins:

Starfshópurinn leggur til að tvenns konar gististarfsemi verði á hótelinu.
Annars vegar fyrir þá sem ekki eru innritaðir á Landspítala, en þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar.
Hins vegar er hótelið fyrir sjúklinga sem eru innritaðir á Landspítala en þurfa ekki að liggja á dýrum legudeildum spítalans. Þeir geta verið að jafna sig eftir aðgerð, eru í virkri meðferð eða sækja dag- og göngudeildarþjónustu og þurfa jafnfram eftirlit og stuðning. Í öllum tilfellum eiga sjúklingar samt að vera sjálfbjarga við athafnir daglegs lífs.

Hótelið mun valda straumhvörfum fyrir sjúklinga, ekki síst fyrir þá sem búa úti á landi og þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur.

Starfshópurinn leggur til að hótelið taki mið af starfsemi sambærilegra sjúkra- og sjúklingahótela á Norðurlöndum. Annað sem einkennir aðstæður hér á landi er takmörkuð heilbrigðisþjónustu víða um land. Tækifærin sem felast í nálægð við Reykjavíkurflugvöll meðan hann er í Vatnsmýrinni skipta hér einnig máli.

Skýrslu starfshópsins má sjá hér

Samvinna og samráð við marga aðila er varðar uppbyggingu nýs spítala við Hringbraut er mjög mikilvægur þáttur.


Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, átti í dag samráðsfund með fulltrúum frá sjúklingasamtökum.


Gestir fundarins voru hönnuðir sjúkrahótelsins sem tekið verður í notkun árið 2017.


Á fundinum gafst fulltrúum frá sjúklingasamtökunum kostur á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum til hönnuða sjúkrahótelsins.

Morgunblaðið birtir í dag fréttaskýringu um stöðu Hringbrautarverkefnisins þar sem rætt er við Gunnar Svavarsson stjórnarformann nýs Landspítala.


Þar kemur fram að samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun ríkisins sé gert ráð fyrir milljarða framlagi ríkisins vegna byggingar meðferðarkjarna sem er stærsta framkvæmd við heildar uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.


„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og í anda þess sem Hringbrautarverkefnið hefur stefnt að, varðandi tíma og kostnaðaráætlanir, sem við höfum unnið eftir“, segir Gunnar.


Fram kemur að öll verk séu á áætlun, nýtt sjúkrahótel verði afhent fullbúið á vormánuðum 2017 og að nýr meðferðarkjarni verði tilbúinn 2023.


Meðferðarkjarninn er stærsta framkvæmdin í heildaruppbyggingunni og þar verður mikilvægasta starfsemi spítalans svo sem skurðstofur, þræðingar, gjörgæsla, myndgreining, smitsjúkdómadeild og ýmsar klíniskar stoðdeildir.

Einnig verða allar bráðamóttökur að mestu sameinaðar í eina í nýjum meðferðarkjarna ásamt annarri starfsemi.

Frétt mbl.is um málið má nálgast hér

Kristjáns Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði á ársfundi Landspítalans, sem haldinn var í dag, að tryggt væri fjármagn til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í nýrri fimm ára fjármálaáætlun ríkisins.

„Þar er í fyrsta sinn áætlað fyrir milljarða framkvæmdum við meðferðarkjarna nýs spítala sem rísa mun á lóð Landspítalans við Hringbraut í samræmi við áætlanir og ákvarðanir stjórnvalda og fyrirliggjandi skipulag,“ segir Kristján.

„Í áætluninni er tryggt fjármagn sem gerir kleift að bjóða út framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna strax og hönnunarferlinu líkur 2018.“

Frétt um málið má nálgast hér

Kvennabladid.is birtir í dag grein eftur Gunnar Svavarsson, stjórnarformann nýs Landspítala.

Gunnar fer yfir framgang byggingarverkefna við nýjan Landspítala á Hringbraut.


Gunnar fer yfir sögu verkefnisins og þá miklu vinnu sem unnin hefur verið af stórum hópi sérfræðinga á undanförnum árum.


Nú stendur yfir bygging sjúkrahótels sem verður tekið í notkun 2017.


Jafnframt þessum framkvæmdaverkefnum er hafin fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna nýs Landspítala. Þar verður öll bráðastarfsemi Landspítala sameinuð á einum stað.


Grein Gunnars má sjá hér

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, var við stjórnvölinn þegar ráðist var í fyrstu steypu vegna framkvæmda við byggingu nýs sjúkrahótels Landspítala við Hringbraut í dag.


Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut.


Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: "Það er ánægjulegt að sjá hversu vel framkvæmdir ganga . Nýtt sjúkrahótel mun bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra strax og það er risið. Þessi fyrsti áfangi framkvæmda við sjúkrahótelið eru sannarlega ánægjulegar fréttir fyrir alla landsmenn“.


LNS Saga ehf. sér um byggingu sjúkrahótelsins. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi.

 

 

Félag atvinnurekenda hélt í dag morgunverðarfund sem bar yfirskriftina „Hvað þarf að gerast til að nýr Landspítali rísi“.

Dagskrá fundarins var:

  • Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: Höldum áfram á markaðri leið
  • María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans: Uppbygging þjóðarsjúkrahúss
  • Jón Finnbogason, forstöðumaður skuldabréfa hjá Stefni: Fjármögnun hátæknisjúkrahúss – sterk staða ríkissjóðs eykur svigrúm

„Höldum áfram á markaðri braut“ var yfirskrift erindis sem heilbrigðisráðherra flutti á fundi Félags atvinnurekenda. Ráðherra fór þar yfir stöðu framkvæmda og næstu skref. Hann sagði ákvörðun um uppbygginguna byggjast á skýrum vilja og sterkum rökum.

Í erindi sínu lagði ráðherra áherslu á að skyldur hans sem heilbrigðisráðherra væru fyrst og fremst við sjúklinga og snérust um að tryggja þeim aðgang að þeirri flóknu og sérhæfðu þjónustu sem þeir þurfi jafnan með sem koma á Landspítalann og að sú þjónusta standist eðlilegar kröfur um öryggi og gæði og einnig aðbúnað:

„Það sem blasir við og fólk verður að átta sig á er að til þess að standa undir þessum kröfum þarf margt að haldast í hendur og uppbygging Þjóðarsjúkrahússins er þar algjörlega nauðsynleg.“

Kristján Þór sagði að nú væri þetta stóra verkefni komið á framkvæmdastig og áfram yrði haldið á þeirri braut sem hefði verið mörkuð, „að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“


Ráðherra rakti feril undirbúnings vegna uppbyggingar Landspítalans undanfarin sex ár, allt þar til fyrsta skóflustunga að sjúkrahóteli á Landspítalalóðinni við Hringbraut var tekin í nóvember síðastliðnum:

„Margítrekuð skoðun málsins, umfjöllun fagaðila, endurmat á faglegum niðurstöðum – og umfjöllun Alþingis hefur alltaf leitt okkur að sömu niðurstöðu sem felur í sér uppbyggingu við Hringbraut.“

Og nú eru framkvæmdir hafnar, sagði ráðherra og bætti við að nú færi að hefjast rýnivinna á forhönnun rannsóknarhússins og undirbúningur að útboði fullnaðarhönnunar þess.

Auk þess mætti benda á að Háskóli Íslands myndi á þessu ári rýna forhönnun vegna byggingar húss fyrir heilbrigðisvísindasvið skólans þar sem allar deildir þess munu sameinast undir einu þaki.


Í júní 2015 samþykkti Alþingi ályktun um stefnumörkun í ríkisfjármálum 2016 – 2019. Ráðherra sagði stuttlega frá áætluninni en í henni felst m.a. að 5,1 milljarður króna verði lagður í uppbyggingu Landspítala á tímabilinu þar sem lokið verði við byggingu sjúkrahótels og hönnun meðferðarkjarna sem boðinn verði út í framhaldinu..

Jón Finnbogason frá Stefni sagði að fjármögnun spítalans yrði ekki vandamál og að staða ríkissjóðs væri að styrkjast.

Á vef mbl.is er ítarleg umfjöllun um framsögu Jóns.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að fjalla um rekstur og þjónustu nýs sjúkrahótels sem rísa á við Landspítala við Hringbraut.

Starfshópurinn skal skilgreina kjarnaverkefni nýs sjúkrahótels með áherslu á aukna þjónustu við sjúklinga. Leita á fyrirmynda frá rekstri sjúkrahótela m.a. á Norðurlöndunum þar sem löng reynsla er af þannig rekstri.

Starfshópnum er jafnframt ætlað að skoða þætti sem snúa að gjaldtöku, greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga, kröfur til þjónustu og leiðir til að ná fram sem mestum samlegðaráhrifum. Einnig á hann að skoða og bera saman ávinning af ólíkum rekstrarformum og hvernig þau falla að þeim markmiðum sem að er stefnt með rekstri sjúkrahótelsins.

Hópurinn á að skila greinargerð fyrir 1. apríl 2016.

Formaður starfshópsins er Þorkell Sigurlaugsson.

Hér má sjá frétt á vb.is um málið

Í Fréttablaðinu 4.9 birtist grein eftir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Pál Matthíasson forstjóra Landspítala um málefni nýs Landspítala. Þar kemur fram að víðtæk samstaða sé um nauðsyn þess að endurnýja húsnæði Landspítala og að tími uppbyggingar sé runninn upp. Farið er ítarlega yfir þau rök sem liggja að baki staðarvals á Hringbraut. Fram kemur að við staðarvalið hafi verið horft til þriggja þátta, góðs aðgengis, hagkvæmni í uppbyggingu og samstarfs við stofnanir. Niðurstaðan sé ávallt sú sama að Hringbrautin hafi þá kosti sem vega þyngst hvort sem horft er til faglegra eða fjárhagslegra þátta.

 

 

Grein í heild sinni má sjá á visir.is 

 

 

Handritsútgáfa grein:

 

Landspítali við Hringbraut

 

Víðtæk samstaða er um nauðsyn þess að endurnýja húsakost Landspítalans. Spítalinn nýtur trausts og velvildar landsmanna sem vilja hlúa að að starfsemi hans. Vilji Alþingis er skýr og hefur verið staðfestur með lögum. Stefna borgarstjórnar liggur fyrir í samþykktu skipulagi. Kyrrstaðan hefur verið rofin, tími uppbyggingar er runninn upp.

Uppbygging Landspítalans verður við Hringbraut. Mikil vinna var lögð í að finna þann stað sem best hentaði uppbyggingu og rekstri til framtíðar og fékkst niðurstaðan eftir yfirlegu og ítarlega skoðun fagfólks með breiða þekkingu á skipulagsmálum og spítalarekstri. Ólíkir hópar hafa endurmetið forsendur og skoðað staðarvalið frá ýmsum hliðum. Einkum þrír þættir hafa verið hafðir að leiðarljósi; gott aðgengi, hagkvæmni í uppbyggingu og samstarf við aðrar mikilvægar stofnanir í nágrenninu. Niðurstaðan er alltaf sú sama – staðsetning við Hringbraut hefur þá kosti sem vega þyngst, hvort sem horft er til faglegra eða fjárhagslegra þátta. Niðurstöður í nýrri skýrslu KPMG þar sem rýnt var í gögn um kostnað og hagkvæmni þess að byggja við nýjar sjúkrahúsbyggingar við Hringbraut eru enn ein staðfestingin á þessu.

Kostir uppbyggingar við Hringbraut

Aðgengi: Aðkomuleiðir að Hringbrautarlóðinni hafa reynst bestar  af þeim kostum sem skoðaðir hafa verið. Aðgengi sjúklinga er gott og verður enn betra með uppbyggingu samgöngumiðstöðvar í túnfæti spítalans, líkt og skipulag gerir ráð fyrir. Um helmingur starfsfólks spítalans getur gengið eða hjólað til vinnu við Hringbraut á innan við 14 mínútum sem felur í sér mikið hagræði fyrir fólkið, spítalann og umhverfið.  Meirihluti starfsmanna kemur til vinnu á undan aðaltoppi morgunumferðar. Landspítalinn vinnur að því að auka hlutfall starfsmanna sem nýta vistvænan ferðamáta, þ.e. koma í strætó, gangandi eða hjólandi. Hlutfallið er nú um fjórðungur og fer hækkandi. Þessi jákvæða þróun  mun skipta miklu máli og auðvelda umferð við og í nágrenni spítalans.

Hagkvæmni: Mikil hagkvæmni felst í uppbyggingu við Hringbraut í ljósi þeirrar staðreyndar að stærstur hluti húsakostsins sem þar er fyrir nýtist áfram, alls um 56.000 fermetrar. Þar vegur þungt nýlegt og vel búið húsnæði barnaspítalans sem kennt er við Hringinn. Annað staðarval krefst miklu fleiri nýbygginga með tilheyrandi kostnaðarauka. Ljúka þyrfti öllum byggingum áður en nýr spítali á nýjum stað gæti tekið til starfa. Slíkar aðstæður skapa þrýsting sem leiðir til enn frekari kostnaðarauka. Bið eftir bættum húsakosti Landspítala -  sem þegar er orðin allt of löng – yrði miklu lengri ef leita þyrfti að nýrri lóð og vinna tilheyrandi skipulag, hanna nýjar byggingar og ný samgöngumannvirki og skipuleggja aðkomu á nýjum stað. Ljóst er að nýr spítali tæki ekki til starfa fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2030 ef hefja þyrfti undirbúningsferlið að nýju. Slíkt er ekki boðlegt, hvorki sjúklingum né starfsfólki.

Nágrenni: Landspítali á í nánu samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og líftæknifyrirtæki sem nú eru að byggjast upp í nágrenni hans. Í því felast mikil tækifæri fyrir uppbyggingu Landspítala sem háskólasjúkrahúss landsins og nálægðin við þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir verulegu máli.

 

Hefjumst handa

Stórar ákvarðanir sem varða ríka hagsmuni margra eru oft umdeildar. Ákvörðun um framtíðaruppbyggingu sjúkrahúss allra landsmanna er svo sannarlega stór og mikilvæg og því var viðbúið að skoðanir yrðu skiptar. Rík áhersla hefur verið lögð á það í ákvarðanaferlinu að vanda til verka og að eiga svör við allri málefnalegri gagnrýni. Niðurstaðan sem liggur fyrir er skýr og afdráttarlaus. Uppbygging við Hringbraut er skynsamleg og rétt niðurstaða. Þess vegna er mikilvægt að hefjast handa svo ljúka megi verkinu og endurbyggja þjóðarsjúkrahús Íslendinga sem fyrst.