Fréttablaðið birtir í dag aðsenda grein eftir lækna, stjórnendur og prófessora við læknadeild HÍ.


Greinin ber yfirskriftina „Framtíðin bíður ekki“ og fjallar m.a. um þau rök sem búa að baki þeirri ákvörðun að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut.


Þar segir meðal annars:


„Staðsetningin við Hringbraut hefur verið skoðuð af fjölda sérfræðinga og nefndir sem hafa lagst yfir málið hafa í öllum tilvikum komist að sömu niðurstöðu; að Hringbraut sé besti valkosturinn. Í flókinni ákvörðun er hin fullkomna lausn ekki til. Staðsetning við Hringbraut er hins vegar mjög góður kostur og mun betri og ódýrari en aðrir kostir sem hafa verið rækilega athugaðir“.


„Helstu rökin fyrir staðsetningu við Hringbraut eru eftirfarandi: Uppbygging á öðrum stað tefur uppbyggingu Landspítala. Áætlað er að nýtt staðarval, skipulagsferli, hönnun og útboðsferli seinki uppbyggingu að lágmarki um 5-10 ár. Til þess höfum við ekki tíma því núverandi húsnæði er þegar úr sér gengið og er of lítið. Starfsemin er rekin í 100 húsum á 17 stöðum. Enn eru við lýði fjögurra manna stofur og aðeins 7% herbergja hafa einkasalerni. Deildir eru yfirfullar og sjúklingum er fundinn staður á göngum. Á sama tíma fjölgar þjóðinni hratt og hlutfall eldri borgara eykst. Lélegur aðbúnaður er óásættanlegur fyrir sjúklinga, skerðir gæði þjónustunnar og ógnar öryggi. Þetta er ólíðandi staða sem bregðast verður við strax“, segir í greininni.


Höfundar greinarinnar eru:
Tómas Guðbjartsson, Magnús Karl Magnússon, Engilbert Sigurðsson, Alma D. Möller, Unnur A. Valdimarsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson prófessorar við læknadeild HÍ og/ eða yfirlæknar/stjórnendur við Landspítala.

Greinin birtist einnig á visi.is hér

 

 

Undirskriftarlistar hóps fólks eru birtir á síðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag.

Stór hópur um 400 manns lýsa þar stuðningi sínum við því að uppbygging nýs Landspítala verði við Hringbraut.

Meðal þeirra sem rita undir stuðningsyfirlýsinguna eru fjölmargir starfsmenn Landspítala, aðilar úr háskóla – og fræðasamfélaginu.

Meðal þeirra sem skrifa undir áskorunina eru um 360 læknar, hjúkrunarfræðingar, prófessorar, sjúkraþjálfarar, ljósmæður, geislafræðingar, móttökuritarar, stjórnmálamenn, verkfræðingar og forstöðumenn ríkisstofnana. Á listanum má nefna Birgi Jakobsson landlækni, Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara, Dag B. Eggertsson borgarstjóra, Geir H. Haarde sendiherra og fyrrum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóra, Páll Matthíasson forstjóra Landspítala og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands auk níu fyrrverandi heilbrigðisráðherra úr fjórum stjórnmálaflokkum.

 

Frétt mbl.is um yfirlýsinguna má finna hér og frétt ruv.is hér

Morgunblaðið birtir í dag aðsenda grein eftir Þorkel Sigurlaugsson, stjórnarmann í félagasamtökunum Spítalinn okkar. Þorkell fer yfir þá umræðu sem verið hefur síðustu vikur um staðsetningu nýs Landspítala og segir meðal annars um staðsetninguna:

„Sem stjórnarmaður í áhugamannasamtökum um uppbyggingu nýs landspítala, „Spítalinn okkar“ ,hef ég kynnst því vel hvað búið er að vinna mikið og gott undirbúningsstarf á undanförnum árum þótt vissulega sé mikið undirbúningsstarf eftir. Samtökin líta ekki á það sem sitt hlutverk að berjast fyrir ákveðnum stað, en þegar lífið liggur við, þá verður ekki orða bundist. Að hvetja til hiks og umbyltingar á þessu verkefni getur haft afdrifaríkar afleiðingar.


Hér má sjá styttri útgáfu af greininni:


Öll rök eru fyrir staðsetningu við Hringbraut


Rökin fyrir uppbyggingu við Hringbraut eru mjög afgerandi hvernig sem á málið er litið og eru hér nefnd nokkur dæmi.


• Við Hringbraut á svokölluðum BSÍ-reit við „bæjardyr“ Landspítala mun rísa samgöngumiðstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið.


• Í nágrenninu eru tveir öflugir háskólar, Íslensk erfðagreining, lyfjafyrirtæki og margvísleg önnur vísindastarfsemi. Háskóli Íslands er rannsókna- og kennsluháskóli á sviði læknisfræði, hjúkrunarfræði, lyfjafræði, verkfræði og fjölmargra annarra háskólagreina.


• Sífellt fleiri nemendur búa á stúdentagörðum í nágrenninu sem dregur úr umferð. Háskólaspítali er eins og nafnið gefur til kynna jafnframt kennslu- og rannsóknaspítali.


• Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Skipulagsstofnun ríkisins hefur samþykkt þetta staðarval.


• Landlæknir, forstjóri Landspítala og mikill fjöldi heilbrigðisstarfsmanna við Landspítala og víðar hafa bent á mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdir við nýjan Landspítala sem fyrst.


• Ef byggður verður nýr Landspítali á nýjum stað mun þjóðin þurfa að reka þrjá spítalaklasa til næstu áratuga. Einn bætist við á nýjum stað ef hann klárast þá einhvern tíma og áfram verða hinir tveir spítalarnir við Hringbraut og í Fossvogi um ófyrirsjáanlega framtíð. Af fenginni reynslu af stórum framkvæmdum mun eitt stykki nýr spítali aldrei klárast að fullu sbr. K bygging Landspítala og Læknagarð sem eru lítil verkefni en hafa aldrei klárast.


• Ekkert liggur fyrir um það hvar betri spítali á betri stað ætti að vera og nýtt skipulags- og undirbúningsferli mundi taka fjölda ára.
Ákvörðun hefur verið tekin á öllum stjórnsýslustigum um uppbyggingu við Hringbraut.


Í svona mikilvægu og flóknu máli er mikill ábyrgðarhluti að reyna að setja verkefnið í uppnám með einhverjum pólitískum áskorunum og yfirlýsingum um miklu betri lausn. Talað er um að hægt sé að græða svo mikið á að selja núverandi landsvæði og byggingar Landspítala við Hringbraut. Og hverjum á að selja og hvenær? Við eigum ekki að byggja nýjan spítala með væntingar um að græða megi svo mikið af núverandi landsvæði og byggingum.


Það mun auðvitað ekki takast að brjóta niður þá samstöðu sem er og hefur verið um þetta verkefni. Það er aftur á móti mikilvægt að starfsfólk spítalans, unga fólkið, sem er að mennta sig á þessu sviði, og sjúklingar framtíðarinnar missi ekki trúna á því að verkefnið sé að fara loksins í gang. Við viljum ekki einhvern annan spítala á einhverjum öðrum stað. Þannig væri verið að gera tilraun til að ýta verkefninu yfir á nýtt Alþingi og næstu ríkisstjórn. Þegar ákvarðanir eins og þessar hafa verið teknar þá á öll þjóðin að standa á bak við hana og styðja með ráð og dáð. Það er full þörf á því.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Guðmund Þorgeirsson yfirlækni á Landspítalanum. Guðmundur fjallar meðal annars um helstu rök fyrir þvi að Hringbraut varð fyrir valinu sem besti kosturinn fyrir nýjan Landspítala. Helstu rökin séu m.a. þau að nýtanlegt byggingarmagn sé mest á Hringbrautarlóðinni og því ódýrast að byggja við Hringbraut.

Guðmundur ítrekar einnig mikilvægi þess að nýr Landspítali verði í nálægð við háskólasamfélagið og akademiska starfsemi, ekki síst með tilliti til þjónustu gagnvart sjúklingum og að Hringbrautarlóðin sé ákjósanleg með tilliti til umferðar og borgarskipulags.

 „Landspítalinn gegnir óumdeildu lykilhlutverki í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Því betri tengsl og því nánari samvinna sem næst við aðrar stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, heilsugæsluna, sérfræðiþjónustu utan spítala og önnur sjúkrahús, þeim mun öflugra er allt heilbrigðiskerfið. Landspítalinn hefur einnig þróast farsællega sem háskólaspítali og mikilvægur hluti af öflugum rannsóknarháskóla sem á í gjöfulu samstarfi við aðrar rannsóknarstofnanir.  Eftir langan meðgöngutíma er runninn upp tími lokahönnunar og framkvæmda og nú hillir undir nýjan og stórbættan húsakost Landspítala við Hringbraut. Með nýjum byggingum mun Landspítalinn eflast á öllum þeim mikilvægu sviðum sem lúta að öflun og miðlun þekkingar í heilbrigðisvísindum og hagnýtingu hennar í þágu heilbrigðis í landinu“ segir Guðmundur að lokum.

Kjarninn.is birtir viðtal við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra 29.4.  Í máli Kristjáns kemur fram að það sé engin spurning í hans huga að nýbyggingar Landspítalans muni rísa við Hringbraut. Staðarvalið hafi verið skoðað og endurskoðað þrívegis og niðurstaðan alltaf verið sú að Hringbraut væri besti kosturinn. Þetta kom í ræðu ráðherra á ársfundi Landspítalans. Jafnframt kom fram að 945 milljónir væru ætlaðar í verkframkvæmdir sjúkrahótels og fullnaðarhönnun meðferðarkjarna og að framkvæmdir myndu hefjast í haust. Kristján vék að rökum fyrir ákvörðuninni um staðsetningu.  Hann sagði að dýrara væri að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á öðrum stað en Hringbraut og nálægð við Háskóla Íslands og þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skipti einnig miklu máli.

Fréttina má sjá hér

Óli Kristján Ármannsson blaðamaður skrifaði í ritstjórnargrein helgarútgáfu Fréttablaðsins að Landspítalinn ætti ekki heima í miðbænum, þar sem hann er nú. Óli Kristján vill heldur hafa hann í útjaðri byggðarinnar; jafnvel uppi á Hólmsheiði eða á Vífilsstaðatúni fyrir ofan Garðabæ. Hann telur að það sé arfavitlaus meinloka að hafa væntanlega nýbyggingu Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.

Umræða um skipulagsmál er föst í nútíðinni og snýst allt of mikið um núverandi ástand umferðar, einkabílinn, bílastæði og mengun. Ferðamáti borgarbúa mun gjörbreytast og horfa verður til framtíðar í skipulagsmálum. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Einarssonar arkitekts á samráðsþingi Nýs Landspítala sem haldið var í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut í gær. Hann segir að í sínum huga hafi aldrei komið annar staður til greina fyrir nýjar spítalabyggingar en Hringbrautin. Spítalinn eigi að vera miðsvæðis og innan um aðra byggð.