13. desember 2012

Brýnt að endurnýja húsnæði til að mæta aukinni þörf

Þjóðin eldist hratt og langvinnir sjúkdómar aukast og til að geta brugðist við aukinni þörf fyrir sjúkrahúsþjónustu verður að endurnýja húsakost Landspítalans. Þetta kom fram í máli þeirra Maríu Heimisdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landspítalans og Gyðu Baldursdóttur, hjúkrunarfræðings og verkefnastjóra hjá Nýjum Landspítala, í þættinum Í bítið á útvarpsstöðinni Bylgjunni á dögunum.

gydamaria_heimisdottir_2010

María benti á að ekki sé fyrirsjáanlegt að áfram verði hægt að veita örugga og góða þjónustu miðað við hina auknu þjónustuþörf nema í nýju húsnæði. „Við horfum fram á að þjóðin mun eldast mjög hratt á næstu árum en einnig er ljóst að hér eins og annars staðar á Vesturlöndum er mjög hröð aukning langvinnra sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma og sykursýki og fleiri sjúkdóma. Þetta kallar á meiri sjúkrahúsþjónustu en við sjáum alls ekki fram á að geta haldið áfram að veita góða og örugga þjónustu nema með því að fá nýtt húsnæði sem leyfir okkur að auka afköstin enn frekar og bæta aðbúnað sjúklinga og starfsfólks,“ sagði María.


Fjölmennir árgangar að komast á efri ár 
Gyða benti á að Íslendingar sem komnir eru yfir sextugt séu 55 þúsund talsins nú en verði orðnir 86 þúsund árið 2025. Rannsóknir sýni að þegar fólk er komið yfir þann aldur stóraukist líkur á að fólk þurfi þjónustu sjúkrahúsa. Legudagar á Landspítalanum nú séu um 100 þúsund en samkvæmt spám verði þeir 150 þúsund árið 2025. 
„Þeir sem eru að eldast nú eru af hinni svokölluðu „baby boom“ kynslóð, fólk sem fæddist á eftirstríðsárunum, í kringum 1945-1965 en þetta voru mjög stórir árgangar. Þegar þessi kynslóð var að koma í skóla þá þurfti að tvísetja og jafnvel þrísetja skólana t.d. í höfuðborginni og svo þegar það fór í menntaskóla þá þurfti að fjölga þeim og svo þegar það fór að kaupa sér íbúðir þurfti að fjölga íbúðum. Og nú er þetta fólk að komast á þann aldur þar sem það þarf mest á heilbrigðisþjónustunni að halda.“


Aukið álag vegna sparnaðar María benti enn fremur á að sparnaður hefði verið mikill á Landspítalanum síðan eftir hrun, síðan þá hefði rekstarkostnaður verið dreginn saman um 23%. „Það er nú kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir því að við finnum fyrir þessu aukna álagi sem okkar starfsfólk svo sannarlega gerir. Aukningin og álagið er líka vegna þess að nú er fleira gamalt fólk og fleiri með króníska sjúkdóma.“ 

Tók 85% gesta innan við 18 mínútur að komast á spítalann 
Þegar María og Gyða voru spurðar út í staðsetningu nýrra bygginga, hvers vegna ætti að byggja við Landspítalann við Hringbraut sögðu þær að ástæðan væri fyrst og fremst vegna þess að þar væru fyrir um 57 þúsund fermetrar af húsnæði sem hægt væri að nota og þar á meðal nýr Barnaspítali. Einnig sé nálægð við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands mikilvæg. Umferðarmálin vegna staðsetningar voru einnig rædd en fram kom í máli þeirra Maríu og Gyðu að samkvæmt ársgamalli könnun sem gerð var á meðal sjúklinga og aðstandenda spítalans kom í ljós að 55% þeirra voru innan við 11 mínútur á leiðinni á spítalann og 85% voru komnir innan 18 mínútna. Ekki sé mikil umferð við spítalann á sumrin en þegar skólar taki til starfa aukist hún mikið.

Dýrara að gera ekki neitt 
Þegar þær voru spurðar hvernig stæði á því að menn hygðust fara í svo dýra framkvæmd þegar mikill niðurskurður væri í rekstri og starfsfólk þyrfti hærri laun benti María á að sparnaður væri af því að byggja nýtt húsnæði og sameina starfsemi LSH á einn stað.  Hagræðing yrði svo mikil að hún borgaði sig, dýrara væri að gera ekki neitt.

„Þetta hefur verið skoðað endurtekið bæði fyrir og eftir kreppu og niðurstaðan er sú sama, að það hreinlega borgar sig að gera þetta miðað við að vera áfram í gömlu húsunum. Gerðar hafa verið úttektir af mismunandi óháðum aðilum og niðurstaðan passar mjög vel við erlendar rannsóknir og erlenda reynslu sem sýnir að almennt er rekstarhagræðing um 7% á ári við að fara í nýtt hús.“

Gyða sagðist svo sannarlega taka undir að hækka ætti laun starfsfólks en þetta væru i raun tvö óskyld mál. Ef til dæmis vantaði leikskóla í ákveðin hverfi væri ekki hætt við að byggja hann af því að laun leikskólakennara væru lág.  „Við fáum seint lán hjá lífeyrissjóðunum til þess að hækka laun. Það gerist örugglega ekki,“ sagði hún að lokum.