Undirritaður hefur verið samningur milli Reykjavíkurborgar og Vísindagarða Háskóla Íslands um að úthluta Vísindagörðum þremur lóðum Reykjavíkurborgar undir randbyggð við Hringbraut þar sem nýr Landspítali mun rísa. Lóðirnar, sem eru nátengdar Landspítalanum, verða nýttar fyrir uppbyggingu heilbrigðistengdrar þekkingarstarfsemi.

„Vatnsmýrarsvæðið er lykilsvæði til að nýta þau sóknarfæri sem leiða að þvi að hafa tvo öfluga háskóla og háskólasjúkrahús í návígi við hvern annan og öfluga og eftirsótta miðborg innan seilingar. Þróun randbyggðarinnar við nýjan Landspítala er spennandi þáttur í að nýta þau“, segir Dagur B.Eggertsson borgarstjóri í viðtali við Morgunblaðið.

Gert er ráð fyrir að uppbyggingu á svæðinu verði lokið árið 2025 og að nýtt sjúkrahús verði tekið í notkun árið 2023.

 

Frétt um samninginn má nálgast hér

Í nýlegri grein í tímaritinu Sóknarfæri er rætt við rektor Háskóla Íslands, Jón Atla Benediktsson, um fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum Háskóla Íslands.

Þar kemur m.a. fram að í tengslum við fyrirhugaða byggingu nýs Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands reisi byggingu við Læknagarð en þar fer nú fram kennsla og rannsóknir á vegum Heilbrigðisvísindasviðs.

Byggingin verður á fjórum hæðum og þar verða kennslustofur, aðstaða fyrir nemendur, skrifstofur Heilbrigðisvísindasviðs, bókasafn, veitingaaðstaða og vinnuaðstaða kennara.

Á árinu 2010 fór fram samkeppni um spítalasvæðið og var nýbygging Heilbrigðisvísindasviðs hluti af þeirri samkeppni.

Viðtalið við Jón Atla má nálgast hér og er á bls. 20

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir árlegum heilsudegi 31.mars á Háskólatorgi.

Þar voru fjölmargir aðilar með bás og kynntu ýmsa heilbrigðistengda starfsemi.

Spítalinn okkar, landssamtök um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss kynntu uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut fyrir áhugasömum nemendum og gestum.

Á myndinni sést Þorkell Sigurlaugsson, í stjórn Spítalans okkar, upplýsa nemendur um hvernig heildaruppbygging nýs Landspítala við Hringbraut mun líta út.

Fréttablaðið birtir í dag grein þar sem fjallað er um mikilvægt samstarf Háskóla Íslands og Landspítala.

Rektor Háskólans, Jón Atli Benediktsson, segir að nálægðin við spítalann sé afar mikilvæg.


„Landspítalinn og Háskóli Íslands starfa sem samofin órofa heild og mynda saman öflugt háskólasjúkrahús“, segir Jón Atli.


Jón segir að nálægðin við Landspítalann sé lykilatriði hvort sem horft sé til kennslu, vísindastarfs, starfsþjálfunar eða nýsköpunar.

Landspítalinn er stærsti og mikilvægasti samstarfsaðili Háskólans sem er þó í fjölbreyttu samstarfi við fjölda aðila innan lands sem utan.


Samstarf þessara stofnana á ekki eingöngu við um heilbrigðisvísindagreinar.

Það eru aðrir þættir samstarfsins mikilvægir svo sem sálgæsla í guðfræði, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, heilbrigðisverkfræði svo fátt eitt sé nefnt.


Hægt er að lesa fréttina hér

„Sameinaðir kraftar í Vatnsmýrinni“

Spítalinn okkar, landssamtök um uppbyggingu Landspítala héldu málþing 15.mars á Hótel Reykjavík Natura. Samtökin hafa frá stofnun 2014 staðið fyrir kynningarfundum og málþingum um mikilvægi þess að uppbygging Landspítala við Hringbraut gangi hratt og vel fyrir sig.

Anna Stefánsdóttir, formaður „Spítalinn okkar“, sagði í tilefni málþingsins:


„Við hjá Spítalanum okkar fögnum því að uppbygging Landspítala við Hringbraut er hafin. Framkvæmdin er í anda þess sem Alþingi Íslendinga hefur ákveðið. Verkefnið er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og heilbrigðisþjónustuna sérstaklega. Það er brýnt að ekkert verði til að tefja framkvæmdirnar og er ábyrgð þeirra sem taka ákvarðanir í því máli mikil“.


„Með málþinginu í dag þá viljum við ítreka mikilvægi þess að ekki verði hnikað frá þeirri ákvörðun að uppbygging nýs Landspítala verði við Hringbraut. Staðsetning er mjög mikilvæg fyrir það háskólaumhverfi sem þarna er, tengslin við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og þær greinar sem eru í Háskólanum í Reykjavík og tengjast spítalanum ásamt líftæknifyrirtækjum sem risin eru í Vatnsmýrinni“.

„Það var mikilvægt að heyra skoðanir unga fólksins hér í dag og greinilegur samhljómur með þvi sem þar kom fram með helstu áherslum okkar hjá samtökunum“.

Þrír fyrirlesarar voru á dagskrá málþingsins. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Klara Guðmundsdóttir læknanemi og Sara Þórðardóttir Oskarsson listamaður.


Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði að samstarf Háskóla Íslands og Landspítala væri afar mikilvægt.


„Stofnanirnar störfuðu náið saman og samstarfið hefði leitt af sér mikinn árangur í vísindastarfi á alþjóðlegum vettvangi, ekki hvað síst með sameiginlegum birtingum í vísindatímaritum. Samstarf á sviði kennslu og starfsþjálfunar væri einnig mjög mikilvægt og að stundum væri sagt að Landspítalinn sé stærsta kennslustofa Háskóla Íslands."


Fyrirlestur Klöru Guðmundsdóttur, læknanema, bar yfirskriftina „Það á enginn eftir að heimsækja þig Sophia“.


Klara veitti innsýn í núverandi ástand á Landspítala og lagði áherslu á óhagræði þess að reka bráðaþjónustu á tveimur stöðum í borginni. Sagði hún að aðstaðan væri óboðleg og að núverandi aðstaða á Landspítala væri ógn við öryggi sjúklinga.


Fyrirlestur Söru Þórðardóttur Oskarsson listakonu „dýnamík í Vatnsmýrinni“ fjallaði um mikilvægi þess að snúa ekki af leið í fyrirhugaðri uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Sara lagði mjög mikla áherslu á nálægð spítalans við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki til að viðhalda þróun í læknavísindum. Sara hvatti stjórnvöld að tefja ekki fyrirhugaða uppbyggingu nýs Landspítala á Hringbraut.

Anna Stefánsdóttir og Jóhannes M. Gunnarsson, ráðgjafar hjá nýjum Landspítala, héldu kynningarfund 24.febrúar með nemendum úr sviðsráði heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Farið var yfir stöðuna á framkvæmdum vegna byggingar nýs Landspítala.

Mikið var rætt um aðstöðu nemenda í meðferðarkjarna nýs Landspítala og um áætlun Háskóla Íslands að reisa nýtt hús fyrir starfsemi heilbrigðisvísindasviðs háskólans.

Farið var yfir fyrirhugaðar tengingar meðferðarkjarna og rannsóknarhúss við hús heilbrigðisvísindasviðs.

Góður rómur var gerður af fundinum og mikill áhugi á nánara samstarfi nýs Landspítala við heilbrigðisvísindasvið.

Fréttablaðið birtir í dag aðsenda grein eftir lækna, stjórnendur og prófessora við læknadeild HÍ.


Greinin ber yfirskriftina „Framtíðin bíður ekki“ og fjallar m.a. um þau rök sem búa að baki þeirri ákvörðun að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut.


Þar segir meðal annars:


„Staðsetningin við Hringbraut hefur verið skoðuð af fjölda sérfræðinga og nefndir sem hafa lagst yfir málið hafa í öllum tilvikum komist að sömu niðurstöðu; að Hringbraut sé besti valkosturinn. Í flókinni ákvörðun er hin fullkomna lausn ekki til. Staðsetning við Hringbraut er hins vegar mjög góður kostur og mun betri og ódýrari en aðrir kostir sem hafa verið rækilega athugaðir“.


„Helstu rökin fyrir staðsetningu við Hringbraut eru eftirfarandi: Uppbygging á öðrum stað tefur uppbyggingu Landspítala. Áætlað er að nýtt staðarval, skipulagsferli, hönnun og útboðsferli seinki uppbyggingu að lágmarki um 5-10 ár. Til þess höfum við ekki tíma því núverandi húsnæði er þegar úr sér gengið og er of lítið. Starfsemin er rekin í 100 húsum á 17 stöðum. Enn eru við lýði fjögurra manna stofur og aðeins 7% herbergja hafa einkasalerni. Deildir eru yfirfullar og sjúklingum er fundinn staður á göngum. Á sama tíma fjölgar þjóðinni hratt og hlutfall eldri borgara eykst. Lélegur aðbúnaður er óásættanlegur fyrir sjúklinga, skerðir gæði þjónustunnar og ógnar öryggi. Þetta er ólíðandi staða sem bregðast verður við strax“, segir í greininni.


Höfundar greinarinnar eru:
Tómas Guðbjartsson, Magnús Karl Magnússon, Engilbert Sigurðsson, Alma D. Möller, Unnur A. Valdimarsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson prófessorar við læknadeild HÍ og/ eða yfirlæknar/stjórnendur við Landspítala.

Greinin birtist einnig á visi.is hér

 

 

Tryggja verður að nýtt háskólasjúkrahús rísi sem fyrst til að hægt verði að mæta nýjum tímum og auknum kröfum í heilbrigðisþjónustu, að því er fram kom í ræðu Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í dag. 

Í ræðu sinni benti Kristín á að Háskóli Íslands og Landspítali hefðu starfað saman um árabil og menntað afburðahæft fólk til starfa í heilbrigðiskerfinu. Um það vitni frammistaða fólksins í kröfuhörðu námi hér heima, í framhaldsnámi erlendis og í starfi heima og í útlöndum á sjúkrastofnunum og vísindastofnunum.