Hönnun nýs meðferðarkjarna í Hringbrautarverkefninu gengur vel.


Við hönnunina er mikilvægt að huga að aðstöðu starfsmanna.


Nú stendur yfir hermun meðal starfsmanna Landspítala þar sem farið er m.a. yfir stærðir á vinnurýmum og aðstöðu fyrir starfsmenn í nýjum spítala.


Sett hafa verið upp herbergi sem eiga að endurspegla stærðir vinnurýma svo starfsmenn geti áttað sig á hvernig vinnuumhverfi verður í nýjum spítala.

 

 

Nú fer að styttast í að fyrsta byggingin í Hringbrautaverkefninu, sjúkrahótelið verði tilbúið.

Sjúkrahótelið, sem er með 75 herbergi, mun breyta miklu meðal annars fyrir fólk af landsbyggðinni sem leita þarf heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítala segirí viðtali á ruv.is:


„ Að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem er ekki veitt í heimabyggð. Svo að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða.“


Guðlaug Rakel segir að til standi að vera með aðstöðu fyrir fjölskyldur á sjúkrahótelinu.


Nýja sjúkrahótelið verður tekið í notkun í byrjun árs 2018.

 

Frétt um málið má sjá hér

 

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að rekstur nýja sjúkrahótelsins verði boðinn út.

Gert er ráð fyrir að Landspítali bjóði út rekstur hótelsins í samvinnu við Ríkiskaup. 

Markmiðið með rekstri hótelsins er að útvega fólki af landsbyggðinni gistingu sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda, styðja við bataferli sjúklinga og að bjóða aðstandendum upp á gistingu.

Sjúkrahótelið verður tekið í notkun í byrjun árs 2018.

Frétt um málið má sjá hér

Í Speglinum á RÚV í dag var viðtal við Þorkel Sigurlaugsson,varaformann félagasamtakanna „Spítalinn okkar“.

„Lífshættuleg hugmynd“, segir Þorkell um þá hugmynd að slá framkvæmdum við Hringbraut á frest. Hann leggur mikla áherslu á það að halda þurfi áfram með verkefnið og klára það.

Í viðtalinu fer Þorkell yfir þau rök sem búa að baki þeirri ákvörðun að Hringbraut hafi verið valinn besta staðsetning nýs Landspítala og frá starfi þeirra samtaka sem hann starfar fyrir.

„Þótt hugmyndin um nýtt sjúkrahús á nýjum stað sé heillandi sé hún ekki raunsæ. Ísland sé ekki í stöðu til slíkrar framkvæmdar nú“, segir Þorkell.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér

Samtök atvinnulífsins og Háskólinn á Bifröst efndu í dag til opins umræðufundar um nýtt sjúkrahús á hótel Natura.


Efni fundarins var fjölbreytt. Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur, kynnti tillögur nýrrar skýrslu um nýbyggingar Landspítala, ólík rekstrarform og forsendur þeirra. Gunnar Tryggvason, verkefnastjóri hjá KPMG, ræddi um forsendur og hagkvæmni þess að staðsetja nýjan spítala við Hringbraut og Hilmar Þór Björnsson, arkitekt, fjallaði um staðsetningu spítalans.


Að loknum framsöguerindum voru í pallborði Gunnar Svavarsson, formaður stjórnar Nýs Landspítala, Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi, Óli Björn Kárason, ritstjóri og Vilhjálmur Ari Arason heilsugæslulæknir.


Fundarstjóri var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA.

Á nýafstöðnu málþingi Spítalans okkar „nýr Landspítali loks í augsýn“ sem haldið var 13.október voru mörg fróðleg erindi flutt um málefni Landspítala.


Dagskrá málþingsins var þétt skipuð og hér er hægt að sjá erindi allra fyrirlesara


Hægt er að sjá erindi eftirtalinna fyrirlesara:


Setning: Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar Spítalans okkar


Nýr Landspítali – nýtt heilbrigðiskerfi Birgir Jakobsson, landlæknir


Er ódýrara að reka spítala í nýju húsnæði? - reynsla Norðmanna


Hulda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri, Norlandia Care Group AS


Nýr Landspítali – nauðsynleg tækniþróun. Gísli Georgsson, verkfræðingur á Landspítala


Nýtt húsnæði – aukið öryggi sjúklinga. Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala


Fræðasamfélagið og sérstaða háskólasjúkrahúss. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor í lyflækningum við Háskóla Íslands


Spítali í borg - skipulag Vatnsmýrar.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar


Lokaorð – Ólöf Nordal, innanríkisráðherra

Reynir Arngrímsson og Guðríður Kristín Þórðardóttir, formenn lækna – og hjúkrunarráðs Landspítala, skrifa grein í Morgunblaðið þann 24.október sem ber yfirskriftina „Landspítali – fjöregg þjóðarinnar“.


Í grein þeirra kemur fram að mikilvægt sé að það verði engar tafir á byggingu nýs sjúkrahúss. Endurnýjunarþörf húsnæðisins sé þannig að brýn nauðsyn sé á því að hefja framkvæmdir við að bæta húsakost Landspítala.


Handrit úr grein þeirra má sjá hér:


Aðalfundir hjúkrunarráðs og læknaráðs Landspítala hafa á undanförnum árum ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að taka af festu á húsnæðismálum þjóðarsjúkrahússins. Bæði þarf að endurnýja húsnæði fyrir grunnstarfsemi spítalans, bráðaþjónustu og meðferðar- og legurými og rannsóknarhús. Viðhald alls eldra húsnæðis spítalans hefur mátt sitja á hakanum þegar rekstrarframlög til spítalans drógust saman um 20% á undanförnum árum. Endurnýjun húsnæðis er aðkallandi og mun gjörbreyta aðstæðum fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Sjúklingar sem leggjast á Landspítala eru mun veikari en áður og þurfa flóknari og sérhæfðari þjónustu. Í umgangspestum yfirfyllast trekk í trekk legudeildir og gjörgæsla. Sjaldnar er borð fyrir báru og rúmanýting hættulega há og sjúklingar lagðir á ganga og geymslurými. Dvalartími á skammtímaeiningu bráðamóttökunnar hefur þróast í að vera óæskilega og í sumum tilvikum hættulega langur. Nýr meðferðarkjarni með sameiginlegri bráðamóttöku og legudeildum mun gjörbylta allri aðstöðu til að sinna sjúklingum spítalans.

Eftir hverju bíðum við? Áhætta og óþægindi fyrir sjúklinga hljótast af því að spítalinn er á mörgum stöðum og kostnaður vegna flutninga milli húsa eykst ár frá ári. Húsnæðið ógnar öryggi sjúklinga, sér í lagi ef horft er til sýkingavarna.

Dæmin sanna að það getur reynst heilsuspillandi fyrir sjúklinga og starfsfólk. Lífsnauðsynlegt er að sameina móttökur bráðveikra á einn stað. Landspítali er þjóðarsjúkrahús Íslendinga og það eru hagsmunir landsmanna allra að húsnæðið sé endurnýjað og fært að kröfum nú- tímans. Nú er svo komið að skammtalækningar duga ekki lengur. Endurreisa þarf grunnstoð íslensks heilbrigðiskerfis sem Landspítalinn er, svo hann geti tekist á við bráðaverkefni líðandi stundar. Lagt grunn að framþróun heilbrigðisþjónustu í landinu og verið sá bakhjarl sem íbúar landsins þurfa í veikindum. Grunnstoð í menntun heilbrigðisstarfsfólks og vísindum. Þeirra sem taka við keflinu og hinna sem þurfa á þekkingu og velþjálfuðu og samhentu starfsfólki að halda í veikindum sínum.

Það verður ekki gert nema með verulega auknu fjármagni til reksturs spítalans og fyrir nýjum framkvæmdum og skilningi stjórnvalda á hlutverki spítalans. Hjúkrunarráð og læknaráð hafa ítrekað ályktað um mikilvægi þess að flýta uppbyggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss og varað við þeirri hættu sem fylgir því að framkvæmdir dragist á langinn. Útilokað má telja að ná fram frekari hagkvæmni í rekstri fyrr en hin dreifða starfsemi spítalans hefur verið sameinuð og rekin á einum stað. Við hvetjum stjórnvöld til að finna leiðir til að hraða áætlunum og tryggja fjármögnun til að bæta húsakost Landspítala.

Undirskriftarlistar hóps fólks eru birtir á síðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag.

Stór hópur um 400 manns lýsa þar stuðningi sínum við því að uppbygging nýs Landspítala verði við Hringbraut.

Meðal þeirra sem rita undir stuðningsyfirlýsinguna eru fjölmargir starfsmenn Landspítala, aðilar úr háskóla – og fræðasamfélaginu.

Meðal þeirra sem skrifa undir áskorunina eru um 360 læknar, hjúkrunarfræðingar, prófessorar, sjúkraþjálfarar, ljósmæður, geislafræðingar, móttökuritarar, stjórnmálamenn, verkfræðingar og forstöðumenn ríkisstofnana. Á listanum má nefna Birgi Jakobsson landlækni, Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara, Dag B. Eggertsson borgarstjóra, Geir H. Haarde sendiherra og fyrrum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóra, Páll Matthíasson forstjóra Landspítala og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands auk níu fyrrverandi heilbrigðisráðherra úr fjórum stjórnmálaflokkum.

 

Frétt mbl.is um yfirlýsinguna má finna hér og frétt ruv.is hér

Spítalinn okkar, félagasamtök um byggingu nýs Landspítala hélt málþing 13.október á Hótel Natura. Samtökin, sem stofnuð voru 2014, hafa staðið að ótal kynningarfundum varðandi nauðsyn þess að hafist verði handa við byggingu nýs Landspítala.

Anna Stefánsdóttir, formaður „Spítalinn okkar“, sagði um málþingið:

„Með nýjum meðferðarkjarna nýs Landspítala,sem verður tekinn í notkun eftir 7 – 8 ár, lýkur sameiningu á bráðastarfsemi Landspítala. Þetta hefur í för með sér að mikinn faglegan ávinning fyrir allt þjóðfélagið. Með málþinginu í dag þá vildu samtökin sýna fram á hversu brýnt það er að hefja byggingu nýs Landspítala. Ef fram fer sem horfir mun nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut marka þáttaskil í uppbyggingu á góðri heilbrigðisþjónustu“. Fjöldi fyrirlesara voru á dagskrá málþingsins.

Hulda Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi forstjóri Landspítala fjallaði um reynslu Norðmanna af byggingu háskólasjúkrahúss.
„Það sem mér finnst skipta mestu máli varðandi byggingu nýs Landspítala er að bæta gæði þjónustunnar og auka öryggi sjúklinga. Með byggingu nýs sjúkrahúss þá mun það leiða af sér mikinn fjárhagslegan ávinning með aukinni hagræðingu meðal annars með þvi að sameina bráðamóttökur. Starfsumhverfið mun breytast og sameiningin mun leiða til margra jákvæðra þátta í starfsmannamálum. Nálægð Landspítala við Háskóla Íslands mun stuðla að öflugra vísindastarfi og mun nýr Landspítali verða mikilvæg stoð í íslensku samfélagi fyrir komandi kynslóðir. Með nýjum Landspítala þá verður hægt að fullnýta allt sem ný upplýsingatækni býður upp á“. sagði Hulda.

Birgir Jakobsson landlæknir sagði í erindi sínu „ Nýr Landspítali, nýtt heilbrigðiskerfi“ að þegar nýr spítali yrði byggður þyrfti að skoða vel verkefnið í heild sinni.Birgir byggir á mikilli reynslu á þessu sviði þvi hann þekkir vel uppbyggingu spítalakerfisins þar sem hann starfaði i Svíþjóð.
Aðrir fyrirlesarar voru Gísli Georgsson verkfræðingur á Landspítala, Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, Guðmundur Þorgeirsson læknir og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar og lokaorð flutti Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.

Hér má sjá frétt um málþingið á mbl.is

Myndir frá málþinginu:

MH myndir-
MH myndir-
MH myndir-
MH myndir-
MH myndir-
MH myndir-