Um NLSH

Nýr Landspítali ohf. (NLSH) er opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og semja um að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu að útboði loknu.

NLSH tók til starfa 1. júlí 2010 í kjölfar þess að Alþingi samþykkti lög um stofnun félagsins. NLSH er heimilt að gera hverskonar samninga til að ná markmiðum sínum á sem hagkvæmastan hátt en ekki er heimilt að hefja framkvæmdir að loknu útboði fyrr en Alþingi hefur heimilað þær með lögum. 


Í kjölfar hrunsins 2008 var horfið frá fyrri áformum um byggingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut en spítalaverkefninu var hleypt af stokkunum á nýjan leik í nóvember 2009 með undirritun viljayfirlýsingar forsætis-, fjármála- og heilbrigðisráðherra og lífeyrissjóða um fjármögnun verkefnisins. Í framhaldinu var NLSH komið á laggirnar og efnt til hönnunarsamkeppni og hönnunarútboðs vorið 2010 þar sem SPITAL-hópurinn svokallaði var hlutskarpastur.

Spítalaverkefnið er samstarfsverkefni NLSH, Landspítala (LSH) og Háskóla Íslands (HÍ) og sitja fulltrúar þeirra í Byggingarnefnd ásamt fulltrúa frá Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR). Verkefnisstjórn er skipuð fulltrúum NLSH, LSH og HÍ og henni til halds og trausts eru Notendastjórnir og Notendahópar Landspítalans og Háskólans. Undir Verkefnisstjórnina heyrir verkefnastjóri og hönnunarstjóri SPITAL-hópsins sem aftur skiptir með sér verkum eftir einstökum verkáföngum, eins og sjá má á skipuriti spítalaverkefnisins.