Hugmyndasamkeppni 2010

 SPITAL varð hlutskarpast í samkeppni um áfangaskipt heildarskipulag fyrir nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut og frumhönnun 1. áfanga nýja spítalans og tengdrar háskólastarfsemi. Niðurstaða dómnefndar var kynnt við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í dag.

Í SPITAL teyminu eru ASK arkitektar, Bjarni Snæbjörnsson arkitekt, Kanon arkitektar, Medplan,Teiknistofan Tröð, Landark, Efla verkfræðistofa,Lagnatækni og Norconsult.

Ein af meginforsendum hönnunarsamkeppninnar var að flytja starfsemi Landspítala í Fossvogi á Hringbraut og ljúka þannig sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu ein og fram kemur í samkeppnislýsingu. Var samkeppnin tvíþætt og tók annars vegar til tillögu að áfangaskiptu skipulagi Hringbrautarlóðarinnar og hins vegar tillögu að frumhönnun 1. áfanga verkefnisins, sem samanstendur af spítalastarfsemi í 66.000 m² nýbyggingu og háskólastarfsemi í allt að 10.000 m² nýbyggingu.

Forval var auglýst í desember 2009 og bárust umsóknir um þátttöku frá sjö hönnunarteymum. Fimm stigahæstu teymunum var boðin þátttaka í samkeppninni í febrúar 2010 og skiluðu þau tillögum sínum 10. júní 2010.

Niðurstaða dómnefndar
Við mat á tillögunum lagði dómnefnd höfuðáherslu á heildarlausn, yfirbragð, ytri og innri tengsl, sveigjanleika og hagkvæmni. Nefndin leitaði auk þess álits innlendra og erlendra ráðgjafa.

Dómnefndin telur að allar tillögurnar séu metnaðarfullar og vel fram settar þar sem gamli spítalinn njóti sérstöðu sinnar. Það var hins vegar einróma niðurstaða nefndarinnar að velja tillögu SPITAL til að útfæra deiliskipulag og frumhanna byggingar 1. áfanga nýs Landspítala við Hringbraut.

Í umsögn dómnefndar er vinningstillögunni lýst sem sterkri hugmynd og höfundar nái vel því markmiði sínu að skapa „bæjarsamfélag sem myndar ramma um þverfaglegt samstarf ólíkra greina“. Orðrétt segir m.a. í niðurstöðu dómnefndar:

„Sveigjanleiki starfseininga er góður vegna lögunar bygginga og stöðlunar þeirra. Svigrúmi til stækkunar er haldið með sveigjanleika „bæjarhverfis“. Áfangaskipting hefur ekki í för með sér röskun á starfsemi spítalans á framkvæmdatíma. Með tilliti til stofnkostnaðar og rekstrar starfseminnar er tillagan metin hagkvæm.“

Þá er uppbrot starfseminnar í aðskildar byggingar meðfram götum talið ríma ágætlega við núverandi byggð á lóðinni og skírskotar jafnframt til vinningstillögu um skipulag Vatnsmýrarinnar. Barónsstígur er tengdur við nýja Hringbraut og afmarkast uppbygging spítala- og háskólastarfsemi á lóðinni austanvert við hann.

Þá kemur fram í umsögninni að uppbrot byggðar með stöllun bygginga, görðum, torgum og gróðri stuðli að fjölbreytileika á svæðinu og aðaltorgið fyrir framan gamla spítalann og aðalinngang nýja spítalans, skapi svæðinu sterka miðju. Stærð og staðsetning torgsins sé til þess fallin að þar þrífist skemmtilegt mannlíf. Grunnhugmynd tillögunnar er talin tryggja greiða umferð akandi, gangandi og hjólandi um spítalalóðina og aðkoma sjúkrabíla sé nokkuð greið.

Markmið um innra fyrirkomulag og tengingar næst í megindráttum í vinningstillögunni að áliti dómnefndar. Sjúklingahótel er ráðgert norðan við barna- og kvennadeild, í góðum tengslum við væntanlegan notendahóp. Rannsóknarstofum spítalans og háskólastarfsemi er komið fyrir í byggingum sunnan við nýju spítalabygginguna og gengur Læknagarður í endurnýjun lífdaga með nýbyggingum háskólahlutans. Þá er uppbygging háskólastarfsemi og Keldna til austurs á lóðinni í síðari áfanga verkefnisins sannfærandi að mati dómnefndar.

TILLAGA 117649

TILLAGA 900011

TILLAGA 201007 - VINNINGSTILLAGA

TILLAGA 378391

TILLAGA 160487

Niðurstaða dómnefndar á pdfSamkeppnislýsing pdf 12.3.2010
Húsrýmisáætlun spítala pdf 12.3.2010
Háskóli Íslands - Húsrýmisáætlun pdf 12.3.2010