HÖFUNDAR
Arkitektar:
VA-arkitektar
Arkþing arkitektar
Úti og inni sf. arkitektar
Arkitema Arkitektar

Landslagsarkitekt:
Landslag

Verkfræðiráðgjöf:
Verkís
Grontmijr Carl Bro.
 
TILLAGAN
Greinargerð
Kynning
Teikningar

Tillagan er byggð á frumlegri og áhugaverðri hugmynd þar sem meðferðarhluti spítalans er felldur inn í landslagið og almenningsgarður búinn til á þökum hans. Þrátt fyrir góða tengingu til norðurs má efast um notagildi garðsins sem almenningsgarðs og hversu vel hann samræmist spítalastarfseminni. Gert er ráð fyrir að síðari áfangar rísi á vestari hluta lóðarinnar og sunnan nýbyggingar, verður þá lóðin fullnýtt.

Stefnt er að því að viðhalda ásýnd gamla spítalans, útsýni til suðurs og aðlaga nýbyggingar að umhverfinu. Þetta tekst höfundum með nýstárlegum hætti en þó á kostnað samhengis við núverandi byggð.

Sú ákvörðun höfunda að styðjast við stíft mátkerfi og setja stóran hluta starfseminnar í „þunga“, niðurgrafna, tveggja til þriggja hæða byggingu gerir grunnflötinn víðáttumikinn. Grunnflöturinn er reglulega brotinn upp með inngörðum sem veita birtu inn í aðlæg rými en þó hefur ekki tekist að skapa ákjósanlegt vinnuumhverfi. Upp úr þakgarðinum rísa „léttar“ legudeildir sem taka mið af stærð og umfangi núverandi bygginga.

Umferð bifreiða er að mestu beint um nýtt hringtorg milli spítala- og háskólahluta og veldur það fyrirsjáanlegum vanda sérstaklega með tilliti til bráðamóttöku. Umferð hjólandi og gangandi gegnum svæðið takmarkast að miklu leyti við jaðar lóðarinnar. Aðalaðkoma er ekki augljós og er fjarri aðkomu að bráðamóttöku.

Innra skipulag spítalans og tengsl starfseininga uppfylla að takmörkuðu leyti markmið samkeppnislýsingar. Einsleitur og stór grunnflötur meðferðarkjarna hefur í för með sér að göngu- og flutningsleiðir verða langar og þær skarast. Tengsl nýrri og núverandi starfseininga spítalans eru einungis neðanjarðar. Stærð legurýma gjörgæsludeilda er ekki í samræmi við forsögn.

Uppbygging háskólastarfsemi, innri tengingar og tengingar við spítalann í fyrri áfanga eru óhentugar en góðar í öðrum áfanga, einnig hvað varðar Keldur. Þrátt fyrir staðlað einingakerfi tekst höfundum ekki að nýta möguleika þess til sveigjanleika. Stór grunnflötur takmarkar svigrúm til stækkunar.

Fyrsti áfangi veldur ekki teljanlegri röskun á starfsemi spítalans á framkvæmdatíma. Röskun verður þó í síðari áfanga.

Með tilliti til stofnkostnaðar og hagkvæmni í rekstri er tillagan metin óhagkvæm. Höfundar skiluðu ekki inn áætluðum stofnkostnaði.

1. áfangi



Fullbyggð lóð